Bernáth István honlapja

NEGYEDIK ÉGTÁJ - Közép-európai, skandináv és Benelux kultúrák

Morgunblaðið

István Bernáth minning

(til birtingar í Morgunblaðinu 14. september 2012)

István Bernáth, sérfræðingur í norðurlandamálum, háskólakennari og þýðandi í Búdapest í Ungverjalandi, fæddist 13. september 1928 og lést 10. ágúst síðast liðinn. Hann var mörgum Íslendingum að góðu kunnur og kom hér margsinnis. Veigamikinn sess í æviverki Bernáths skipa íslenskar bókmenntir að fornu og nýju. Hann naut viðurkenningar fyrir listrænar þýðingar, ekki síst bundins máls. Bernáth kenndi íslensku við hugvísindaháskólann í Búdapest um áratuga skeið.

Bernáth var tvíkvæntur, fyrri kona hans Márta Radó ritari lést 1988. Tveir eru synir þeirra, István tölvunarfræðingur og Márton kaupmaður í Búdapest. Síðari kona Bernáths, Jolán Oross félagsráðgjafi, lifir mann sinn.

Í dag heiðra vinir Istváns Bernáths minningu hans með dagskrá á samkomu í Hreiðrinu, félagsheimili listamanna í Búdapest.

István Bernáth kynntist ég á námsárum mínum í Búdapest og var honum lítillega innan handar um útvegun á íslenskum bókum. Hann var þá fullfær í norðurlandamálum en háskólagreinar hans höfðu verið þýska og franska. Á árunum fyrir og um 1960 glímdi hann við þýsku skáldjöfrana Goethe og Hölderlin og þótti vel farnast að snúa ljóðum þeirra. Síðar setti hann á sína tungu urmul kvæða Norðurlandaskálda, þ. á m. íslenskra skálda.

Árið 1965 var merkisár á þýðanda- og fræðimannsferli Bernáths. Það ár kom út Íslendingasaga í fyrsta skipti í ungverskri þýðingu, sjálf Brennunjálssaga, og sama ár birtist ein veigamesta skáldsaga Halldórs Laxness, Íslandsklukkan. Báðar bækur hafði Bernáth þýtt úr íslensku en hann einn þarlendra manna gat þá fengist við bókmenntir okkar á frummálinu. Sex árum áður birti hann þýðingu sína á skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, 79 af stöðinni, og var það fyrsta sinni sem texta var snúið beint úr íslensku til útgáfu á tungu Ungverja. Sagan var þýðandanum æfingatexti en hlaut lof eigi að síður. Halldór Laxness hafði verið lítt kunnur í Ungverjalandi, þó hafði Brekkukotsannáll komið út 1962 í þýðingu Margit Beke úr sænsku en einmitt Bernáth hafði verið henni til aðstoðar við kvæði og skýringar. Íslandsklukkan var þykkildisbók á ungversku enda allir þrír hlutarnir í einu bindi. Forlag  helgað öndvegisritum heimsbókmenntanna gaf bókina út og var þar vandað til allra verka. Njálssaga kom hins vegar í flokki fremur óhrjálegra vasabrotsbóka sem voru prentaðar í feiknastóru upplagi handa lesfúsum. Ný bók kom á vikufresti og kostaði á við brauðhleif. Er líklega einstætt að frumútgáfa íslendingasagna sé svo alþýðumiðuð. Bernáth þýddi Njálu að nýju og kom hún út í þeirri gerð 1995, í bindi með Eglu er hann einnig þýddi. Áður hafði hann gefið út Hrafnkelssögu ásamt Gíslasögu og Bandamannasögu. Stórvirkið í starfi Bernáths er án efa bókin „Norræn goðafræði“ 2005 sem geymir allar goðakviður Eddu og væna hluta Gylfaginningar og Skáldskaparmála ásamt fræðilegum inngangi og skýringum. Bernáth ritaði sem svarar 2–3 bókum af bómenntasögulegu efni um Ísland og Norðurlönd í ungverskt alfræðirit, hélt fyrirlestra um norræna menningu og gerði útvarpsþætti. Hér er ógetið fjölda bóka sem hann þýddi úr norðurlandamálum og hollensku. Hann lét eftir sig handrit fullbúinna þýðinga á Grænlendingasögu og Eiríkssögu, Völsungasögu og Íslendingabók Ara. Einnig er óprentuð íslensk málfræðilýsing.

Að leiðarlokum er mér ljúft að minnast samverustunda með István og Mörtu á heimili þeirra þegar við öll vorum ung. Vinátta hófst sem var mér hugbót á erfiðum tíma. Síðar áttum við aðrar og ekki síður ánægjulegar samvistir í heimsóknum hans hingað til lands, og oft naut ég gistivináttu og rausnar þeirra Jolán úti í Búdapest. István opnaði mér þá sýn inn á lendur ungverskra mennta er ég síst hefði viljað án vera. Í samskiptum okkar var hann jafnan veitandi, ég þiggjandi. Ísland og íslensk menning átti István Bernáth einnig þakkarskuld að gjalda.

Hjalti Kristgeirsson

Facebook megosztás